Sįlfręšižjónustan Blęr, Heilsugęslustöšinni Borgarnesi, s. 432 1430
Forsíða ,

Fræðsla

Grein Siguršar Ragnarssonar birt ķ Aušnusporum árið 2004. Sigurður var forstöðumaður á Meðferðarheimilinu að Hvítárbakka í Borgarfirði á árunum 1998 til 2007.

Meðferðarþolinmæði

Þegar horft er til barna/unglinga í vanda er áherslan þessa dagana á að setja beri inn meiri þunga í að styðja fjölskyldur og annað nærumhverfi barnanna/unglinganna. Eru þá lagðar til grundvallar bæði fjárhagslegar og faglegar forsendur. Þetta er vissulega af hinu góða, samhliða því sem sýna ber mikla aðgát. Í þjóðfélagsgerð okkar í dag er töluverð viðleitni til að leita skammtímalausna í hverju því er skoða skal. Menn horfa með glýju í augum til skammtímagróða í fjármálum og er sá flinkastur sem fljótastur er að kaupa og selja bréf og fá sem mest í milli. Endurskipulagning og hagræðing eru töfraorð dagsins í þeim tilgangi að straumlínan verði skarpari og við komumst hraðar áfram í kapphlaupinu um að höndla hamingjuna.

Í meðferðargeiranum er þessi “trend” líka til staðar. Leitin er sífellt í gangi að stuttu og árangursríku meðferðarferli er dugi nær öllum. Ný meðferðarform komast “í tísku”, form sem eiga að leysa hið gamla af hólmi og boða nýja, breytta og betri tíma. Stundum birtist gamalt vín á nýjum belgjum, en auðvitað einnig (sem betur fer !) ný uppskera. Þessi viðleitni til að finna “hið stutta árangursríka form” á að sjálfsögðu rætur að rekja til fleiri sjónarmiða en faglegra. Pólitísk, félagsleg og fjárhagsleg sjónarmið hafa sitt að segja. Og þá ekki síður fagleg kreppa þess velferðarkerfis er við búum við, þegar starfsmenn þess skynja að allt sem þeir reyna skilar ekki tilætluðum árangri. Allt eru þetta góð og gild sjónarmið en alltaf þarf að gæta þess að jafnvægis sé gætt og að t.d. pólitísk eða fjárhagsleg sjónarmið beri ekki ofurliði hin faglegu. Ábyrgð fagaðila er rík, að þeir haldi vöku sinni og standi vörð um farsæld skjólstæðinga sinna með fagleg sjónarmið að leiðarljósi.

“Hvítárbakki er langtímameðferðarheimili “ er eitt af því fyrsta sem við segjum við unglinga sem eiga að vistast hjá okkur. “Heimili þar sem þú munt verða í 1 ár eða lengur”. Við gerum okkur vel ljóst að í flestum tilvikum hljómar þetta í fyrstu skelfilega fyrir ungling. Heilt ár er heil eilífð á þessum aldri. Heil eilífð þar sem þau eiga að vera fjarri vinum, neyslufélögum, fjölskyldu o.s.frv. Fjarri “stuðinu” í bænum, úti í sveit þar sem “ekkert er að gerast”.

Fleirum en unglingnum finnst sem þetta sé langur tími. Fjölskyldur ungmennanna engjast, systkini spyrja, afi og amma efast og þannig má áfram telja. Jafnvel vistunaraðilar (starfsmenn barnaverndarnefnda) eiga oft erfitt með að standa frammi fyrir unglingi og segja við hann skýrt og skorinort að staða hans sé með þeim hætti að langtímameðferð sé eina úrræðið sem dugi.

Í langtímameðferð eiga eingöngu að fara unglingar sem búa við það stjórnleysi á eigin lífi að ekki ræðst við það í þeirra heimaumhverfi. Slíkt stjórnleysi sér oftast mörg birtingarform svo sem mikla neyslu fíkniefna, langan afbrotaferil, sterkar skapsveiflur, lausung, ofbeldi, brotna skólagöngu og svo mætti áfram telja.

Unglingar sem búa við slíkt stjórnleysi í eigin ranni eru undantekningarlaust með mjög brotna sjálfsmynd. Vinna sem snýr að því að hjálpa þannig stöddum unglingum að ná fótfestu í lífinu er alltaf flókin, krefst margra sjónarhorna og langs tíma. Góðir hlutir gerast hægt. Það á við þegar viðfangsefnið er illa staddir unglingar og fjölskyldur þeirra.

Verkefni meðferðarheimilis er að skapa einstaklingnum aðstæður sem gera honum fært að breytast og þroskast. Augljóslega getur það að breytast og þroskast tekið langan tíma hjá einstaklingum sem eru mjög brotnir og í litlum sem engum raunverulegum tengslum við nærumhverfi sitt.

Þegar unglingur kemur í meðferð að Hvítárbakka hefur margt verið reynt áður. Stuðningsviðtöl, meðferðarviðtöl, dvöl á öðrum stofnunum, fjölskyldumeðferð, o.fl. o.fl. Upplifun unglingsins er að ekkert hafi dugað, þrátt fyrir “fagurgala” hinna ýmsu meðferðaraðila eru þeir komnir á byrjunarreit í langtímameðferð. Þetta ásamt öllu því sem brotið er varðandi tengsl við fjölskyldu, gerir að traust þeirra til fullorðinna við komu er lítið sem ekkert. Hvers vegna ættu þau líka að treysta fullorðnum, þar sem öll þeirra reynsla segir þeim annað. Þeir rammar sem settir hafa verið í kringum þau hafa ekki haldið þegar á reyndi. Í raun hafa þau oft neikvæðar væntingar til tengsla. Þetta þýðir ekki að þráin eftir tengslum sé ekki til staðar. Hafi unglingurinn einhvern tíma á ævinni myndað góð tengsl við einn eða fleiri fullorðna, mun hann þrá slíkt á ný. Það þýðir hins vegar hér á Hvítárbakka, að þau munu reyna á þolrifin í þessum fullorðnu. Þau munu með öllum ráðum reyna að finna út hvort viðkomandi sé treystandi. Hvort hann/hún standi við orð sín. Hvort viðkomandi láti blekkjst af hinu og þessu. Hvort hægt sé að fara á bak við reglurnar. Hvort hinir fullorðnu “springi” þegar á reynir. Hinir fullorðnu verða svo að hafa burði til þess að mæta þessum tilraunum öllum án þess að ruglast í ríminu sjálfir. Heimilið /meðferðarstaðurinn verður að sýna að það sé traustsins vert áður en hægt er að ætlast til að unglingurinn treysti. Við fullorðnu verðum að kunna að bregðast við þegar unglingurinn reynir að skapa klofning í okkar hópi “Það er bara hægt að tala við þig !” “Ingi er óþolandi, hann hlustar aldrei “. “Mér finnst þú skilja mig betur og vera sanngjarnari en hinir”. Verkefni meðferðaraðilans er að skapa nálægð, tengsl, traust, en slíkt er oft býsna vandasamt, því í nálægðinni getur unglingurinn reynt að framkalla hjá hinum fullorðna það sem unglingurinn þarf síst á að halda. Við fullorðnu þurfum ávallt að gæta þess að halda ró okkar og yfirsýn, bæði sem einstaklingar og hópur.

Því meira sem barn er skaðað í tengslum, því lengri tíma tekur fyrir það að treysta öðrum. Traust kemur heldur ekki í einu stökki, mun oftar kemur það í litlum skrefum, hænufetum þar sem stöðugt er verið að reyna á hvort ísinn er heldur.

Með auknu trausti skapast nýr meðferðargrundvöllur. Grundvöllur til að nálgast sársaukafulla hluti eins og bresti í samskiptum, áföll, fíkn o.s.frv. Löng og erfið áfallasaga útheimtir langan og erfiðan tíma í vinnslu. Þannig get ég nefnt sem dæmi tvo drengi er hér hafa verið í meðferð. Báðir höfðu verið misnotaðir kynferðislega, án þess að það hefði áður komið fram í þeirra meðferðarsögu. Báðir glímdu hér í nokkra mánuði í mótþróa, þ.e. þar sem þeir reyndu með flestum tiltækum ráðum að finna út hvort við værum trausts verð. Næsta skref þegar þeir töldu sig komna áleiðis með að finna út úr því var að fá okkur til að lofa að þeir mættu vera hér lengur en 1 ár. Einhverjum mánuðum eftir að loforðið var fengið, afhjúpuðu þeir að þeir hefðu orðið fyrir kynferðislegri misnotkun. Síðan tók við langur úrvinnslutími úr þessu og öðrum áföllum er þeir höfðu orðið fyrir á lífsleiðinni.

Þessir drengir voru hér á sitt hvorum tímanum en sláandi er hve nálgun þeirra til að treysta einhverjum fyrir sínu stærsta áfalli var lík. Innra með sér vissu þeir að það þurfti a.m.k. þrennt til þ.e. traust, tíma og aðstæður, til að vinna úr þeirra málum og slík vissa mótaði nálgun þeirra að því að leggja sig á borðið.

Það er trú mín að í langtímameðferð þurfum við að vera mjög einstaklingsmiðuð og ákveða lengd meðferðardvalar í samræmi við alvarleika þeirra vandamála er hver og einn á við að glíma, og þeirra aðstæðna er hann býr við að öðru leyti.

Þannig þarf meðferðarkerfið okkar að hafa sveigjanleika til að geta vistað börn/unglinga í langan tíma þurfi þau á því að halda. Að öðrum kosti eigum við á hættu að það eina sem við náum sé að aðlaga ungling að ákveðnum römmum í ákveðinn tíma í stað þess að við höfum gefið honum raunverulegan kost á að breytast og þroskast .

Leitin að einföldum lausnum til að leysa flókin mannleg vandamál er leitin að enda regnbogans !


 
Sálfræðingar
Námskeið
Meðferð
Fræðsla
 Grein Ingu
Grein Sigurðar
Grein Sigurðar 2
Tenglar
til baka
Sálfræðiþjónustan Blær ehf. Steinahlíð, 311 Borgarnes, s. 435 1530, 861 3260, 893 3260, netf. blaer@salfradi.is