Sįlfręšižjónustan Blęr, Heilsugęslustöinni Borgarnesi, s. 432 1430
Forsíða

Ljós
Ljós lýsir í myrkri
Það fyllir mig af gleði
Leiðir mig - gefur mér líf.
Ljósið - það er inni í mér
Það er inni í þér
Saman lýsir það skært.


Það er gæfa mín að eiga hlutdeild í fullt af ljósum - ljósum sem voru gefin mér. Ekki af því að ég verðskuldaði þau eða hefði náð að vinna mér þau inn. Nei þessi ljós eru til í lífi mínu vegna kærleika annarra.

Skærustu ljósin í lífi okkar flestra eru börnin okkar. Hugsunin fyllir okkur þakklæti og gleði. Hvílíkur kærleikur að fá að njóta þessara ljósa. En ekkert er eilíft og stundum steðjar hætta að. Litlu ljósin okkar geta orðið veik og jafnvel sloknað. Þá verður tilveran myrk. Og þó við jafnvel eigum fullt af öðru ljósi er eins og ekkert ljós nái að lýsa það myrkur sem skapast þegar þetta eina ljós slökknar. Ég hef átt ljós sem hefur slökknað og þá sá ég svartasta myrkur tilveru minnar. En þrátt fyrir að það hafi slökknað á þessu ljósi og ég á tímabili sæi ekkert ljós, uppgötvaði ég smátt og smátt að ljósið var ekki slökknað.
Ég segi stundum við 3 ára son minn, þegar hann kvartar yfir því að sjá ekkert þegar ég hef slökkt ljósið á kvöldin - “ Lokaðu augunum og þá sérðu ljós” Ég uppgötvaði að þessi viska átti líka við dauðann. Lokaðu augunum og þá sérðu ljós. Ég uppgötvaði að ekkert gat slökkt ljósið sem drengurinn okkar hafði kveikt inni í hjarta mínu. Svo lengi sem ég ætti kærleikann í hjartanu - minningarnar og fallegu myndirnar í huga mér - ætti ég ljósið áfram. Þannig er kærleikurinn. Hann nær langt út yfir gröf og dauða. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi og þar með getur ljósið haldið áfram að lýsa.
Ljós og kærleikur eru þannig tengd órjúfanlegum böndum. Í upphafi var sagt verði ljós og það varð ljós. Þetta ljós var okkur gefið og okkur var líka sagt að við ættum ekki að byrgja ljósið. Í Matteusarguðspjalli stendur “.... Þér eruð ljós heimsins; borg sem stendur uppi á fjalli fær ekki dulist. Ekki kveikja menn heldur ljós og setja það undir mæliker, heldur í ljósastikuna og þá lýsir það öllum sem eru í húsinu. Þannig lýsi ljós yðar mönnunum til þess að þeir sjái góðverk yðar og vegsami föður yðar, sem er á himnum”...
Á sama hátt og við verðum aðnjótandi ljóss er okkur ætlað að lýsa. Við getum lýst og gefið öðrum ljós. Hugleiddu rétt sem snöggvast ..”er ég ljós fyrir einhvern”.... “ gef ég af sjálfri mér til annarra”... Og aftur langar mig að segja ykkur sögu af þessum 3 ára syni mínum, sem heitir reyndar Logi. Um daginn vorum við í göngutúr; ég, hann og yngsti sonur minn, sem svaf vært í vagninum sínum. Logi var ekki kominn langt frá heimili okkar þegar hann byrjaði að láta sig allt og alla varða. Á vegi okkar var gamall maður. Logi heilsaði honum eins og hann þekkti hann. Ég brosti afsakandi og áfram hélt Logi. Spurði gamla manninn hvað hann héti og hvað hann væri að gera. Og viti menn maðurinn fór að ljóma. Hann beygði sig niður og talaði áhugasamur við Loga. Þessi barnslega einlægni náði að lýsa upp hjarta gamla mannsins og um leið mitt. Þessi litli snáði notar núþegar ljósið sitt til að lýsa öðrum. Hann sýnir áhuga og lætur sig hlutina varða. Fálæti okkar fullorðnu er stundum svo mikið. Það er oftast þessi litlu ómerkilegu atriði sem lýsa upp tilveruna. Einhver heilsar okkur, segir góðan daginn eða brosir.

Og aftur spyr ég notum við ljósið okkar ? Leyfum við því að lýsa fyrir aðra ? Við getum lært mikið af óspilltum börnunum. Við erum ljós og okkur er ætlað að lýsa. En hvað fær mig til að lýsa? Hvað fær þig til að lýsa ? Við þurfum ást og kærleika til að geta lýst. Við þurfum að vera í tengslum við okkur sjálf til að geta lýst. Og við þurfum að eiga hlutdeild í ljósinu mikla - kærleika Guðs - til að geta lýst. Við þurfum að hlusta á okkar innir rödd og taka tillit til hennar. Oft er það stress og hraði sem hindrar okkur í að geta verið ljós. Við sökkvum í leiða og drunga og ljós okkar verður dauft, já kanski er það þá undir mælikeri, en þar á það ekki að vera. Okkur var ætlað að lýsa - við eigum að leyfa því að sjást. Okkur voru gefnir hæfileikar í vöggugjöf - ást og líf. Hlutverk okkar er að lýsa og þess vegna eigum við að gera allt til að þroska þessar gjafir. Þroska ljósið sem Guð gaf okkur. Hvert og eitt okkar er einstakt. Guð hefur skapað okkur öll frábrugðin. Ekkert okkar er eins - þess vegna geta ljós okkar lýst á svo mismunandi vegu, en öll eru ljósin mikilvæg. Ef það logar ekki á ljósinu þínu, þá skaltu athuga hvað stendur í veginum. Getur verið að þú leyfir hjarta þínu að vera fullu af óánægju, reiði eða öðrum neikvæðum hugsunum - jafnvel hatri. Ef svo er getur ljósið þitt ekki lýst. Það er þitt að ákveða hvað fyllir hjarta þitt. Ef hjarta þitt þolir ekki ljós, ef það er fullt af hlutum sem ekki þola birtu þá er full þörf á að fara að endurskoða hlutina. Ljósið getur ekki lýst án kærleika.

Við getum líka velt fyrir okkur hvort við erum fær um að sjá ljóið í öðrum - hvort við erum fær um að leifa því að njóta sín. Gefum við ástvinum það pláss í lífi okkar sem við í raun viljum innst í hjarta okkar. Að sjá ljósið í öðrum, að leifa ljósi annarra að njóta sín í allri sinni fegurð er kannski það næsta sem við komumst að elska án sjálfselsku.

Lærum að meðtaka ljós annarra með heilu hjarta og lærum að gefa ljós á sama hátt, án skilyrða og sjálfselsku og þá finnum við líka ástina inni í okkur og lífið verður bjart.

Hugvekja flutt af Ingu Stefánsdóttur 1995 í Áskirkju.

 

 

Sálfræðingar
Námskeið
Meðferð
Fręsla
 
Tenglar
Sįlfręšižjónustan Blęr
Sįlfręšižjónustan Blęr ehf. Steinahlíð, 311 Borgarnes, s. 435 1530, 861 3260, 893 3260, netf. blaer@salfradi.is